Áliðnaðurinn á Íslandi eftir Kyoto

 

 

Hvaða tillögur eiga íslensk stjórnvöld að gera um meðferð áliðnaðarins í því samkomu­lagi sem við tekur eftir að Kyoto-bókunin rennur út árið 2012?

Að mínu mati ættu íslensk stjórnvöld að leita eftir samvinnu við ríki þar sem áliðnaðurinn fær orku sína að mestu eða öllu leyti úr öðrum orkulindum en eldsneyti, um þá tillögu að áliðnaðurinn sjálfur, þ.e. framleiðsla áls í álverum, sé algerlega utan losunarbókhaldsins á koltvísýringi og öðrum gróðurhúslofttegundum. Rökin fyrir því eru eftirfarandi:

Framleiðslu á hverju kg áls í nýtísku álverum fylgir losun á um 1,7 kg af gróðurhúsa­lofttegundum að CO2-ígildi. Hvert kg af áli sem notað er í bíla í stað þyngri málma sparar á hinn bóginn losun á 20 kg af CO2 yfir endingartíma hans, sem er stuttur í samanburði við meðaldvalartíma koltvísýrings í andrúmsloftinu. Þetta þýðir að ef 8,5% eða meira af hráálinu er notað í bílasmíði nægir það til að vega upp losunina frá framleiðslu alls álsins. Í reynd fer nú þegar miklu stærra hlutfall hráálsins í bílasmíði og það hlutfall fer vaxandi.

Af þessu leiðir að álframleiðsla er starfsemi sem dregur úr losun gróðurhúsa­lofttegunda í heiminum. Og það er heimslosunin ein sem skiptir máli fyrir loftslagsbreytingar. Slík framleiðsla á því ekkert erindi í það sem tekur við af Kyoto-bókuninni eftir 2012.

Um raforkuna til álvinnslunnar gegnir öðru máli. Hún er aðkeyptur framleiðsluþáttur í álvinnslu eins og önnur aðföng. Losun vegna framleiðslu hennar á því heima í arftaka Kyoto með sama hætti og losun vegna framleiðslu á öðrum aðföngum álvinnslu. Ef raforkan er framleidd úr endurnýjanlegum orkulindum eins og vatnsorku, jarðhita, vindorku o.s.frv., eða úr kjarnorku, fylgir vinnslu hennar að heita má engin losun gróðurhúsa­lofttegunda. Ef hún er framleidd úr eldsneyti á losun vegna framleiðslu rafmagnsins að teljast með í losunarbókhaldinu. En sanngjarnt sýnist að við mat á þeirri losun sé tekið tillit til þess að notkun á hluta álsins í farartæki gerir betur en að vega upp losunina sem fylgdi framleiðslu þess alls í álverinu. Jafnframt má telja eðlilegt að í sam­komu­laginu sem við tekur af Kyotobókuninni verði ákvæði þar sem ríki sem hýsir álver innan sinnar lögsögu skuldbindur sig til að krefjast af nýjum álverum þeirrar bestu vinnslutækni sem er tæknilega og efnahagslega nothæf á hverjum tíma.

Hér væri um ákvæði að ræða sem ekkert snertir Ísland sérstaklega heldur tæki til álvinnslu um allan heim.

Í þessu samhengi er við hæfi að minna á að frammistaða íslenska áliðnaðarins í að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda frá framleiðslu sinni hefur verið frábær á umliðnum árum. Þannig hefur hann minnkað losun sína á fjölflúorkolefnum, sem eru mjög öflugar gróðurhúsalofttegundir, á kg framleidds áls, um 90% á árabilinu 1998 til 2005 samkvæmt gögnum frá Umhverfisstofnun, og heildarlosun sína á kg áls um 41% á sama tíma.

 


Um "lág þolmörk"

Í Lesbók Morgunblaðsins birtist hinn 11. ágúst síðastliðinn pistill eftir Jón Ólafsson sem nefnist „Aluminiumindustri ud af Island“, þar sem sagt er frá því að þessi orð hefðu verið krotuð á hús íslenska sendiráðsins í Kaupmannahöfn. Jón rekur frásagnir íslenskra fjölmiðla af þessu tiltæki, sem flestar voru neikvæðar, og spyr í lokin: „Hvers vegna ætli þolmörk gagnvart mótmælum liggi svona lágt? Er þetta eitthvað séríslenskt?“ Hér fer höfundur villur vegar. Þolmörk fjölmiðla á Íslandi gagnvart mótmælum eru alls ekki lág. Íslenskir fjölmiðlar hafa skýrt með greinargóðum hætti frá mótmælaályktunum funda austur í sveitum gegn virkjunum í Þjórsá; frá ályktunum mótmælenda gegn stækkun álversins í Straumsvík í aðdraganda bæjarkosninganna þar um skipulagstillögu bæjaryfirvalda og frá ályktunum gegn nýjum álverum víðsvegar um land. Og bæði blöð, útvarp og sjónvarp gerðu ítarleg skil mótmælagöngu 15.000 manns gegn virkjunum og álverum niður Laugaveginn fyrir fáum árum. Það er því mikill misskilningur hjá höfundi að þolmörk Íslendinga gagnvart mótmælum séu lág. Þau eru langt frá því að vera það eins og eðlilegt er í landi sem býr við tjáningarfrelsi. En sitt hvað er mótmæli annarsvegar og skemmdarverk eða hryðjuverk hinsvegar. Þar eru þolmörk Íslendinga lág. Og eiga að vera það af samskonar ástæðu og þolmörk gagnvart meðferð elds eru, og eiga að vera, lág. Skemmdarverk eru lögbrot. „Ef vér slítum sundur lögin munum vér einnig slíta stundur friðinn“ sagði Þorgeir ljósvetningagoði á Alþingi forðum. Sá sannleikur verður aldrei of oft sagður. Skemmdarverk og lögbrot hafa um aldir slitið friðinn víða um lönd með hörmulegum afleiðingum.

Frá mótmælum við Kárahnjúka 2006

Frá „mótmælum“ við Kárahnjúka 2006

Ef slakað er á eldvörnum er hættunni boðið heim. Ef „minniháttar“ lögbrot eru liðin færa botamenn sig upp á skaftið. Framhaldið getur endað með skelfingu. Um það geymir sagan mörg sorgleg dæmi. Enginn málstaður réttlætir skemmdarverk í lýðfrjálsu landi. Ísland er lýðfrjálst land. Við höfum því ekkert að gera með „mótmæli“ af því tagi sem meðfylgjandi mynd frá Kárahnjúkum sýnir. Slíkt atferli ber að kæfa í fæðingu. En öllum, Íslendingum sem útlendingum, er frjálst að mótmæla, í réttri merkingu þess orðs. Jón Sigurðsson og fylgismenn hans „mótmæltu allir“ á sinni tíð. En þeir brutu ekki rúður í Lærða skólanum og slettu ekki skyri á Trampe greifa. Þeir komu fram af reisn en ekki skrílshætti. Þetta er munurinn á mótmælum og spellvirkjum. Fram kemur í greininni sem hér er vísað til að höfundur er kennari. Vonandi brýnir hann fyrir nemendum sínum muninn á mótmælum og skemmdarverkum.

Leyfum skynseminni að komast að

blondulon

Blöndulón. Ljósmyndari: Emil Thor

Í ÞESSARI grein bendir Jakob Björnsson, fyrrverandi orkumálastjóri, á að því fari víðsfjarri að Ísland verði náttúrulaust þótt við nýtum vatnsorku okkar og jarðhita eftir því sem efnahagsleg rök eru til. Aðeins tæplega fjórðungur vatnsorku á Íslandi er efnahagslega nýtanlegur svo að það verður nóg um fossa til að horfa á og árnið til að hlusta á þótt við nýtum orkuna sem borgar sig að nýta.

Í ítarlegu blaðaviðtali sem Pétur Blöndal átti við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra og formann Samfylkingarinnar, í Morgunblaðinum 27. maí síðastliðinn er m.a. vikið að hvalveiðum. Pétur spyr Ingibjörgu: " Hver er afstaðan til hvalveiða?" Svar hennar er: "Í mínum huga þarf að taka það mál út úr tilfinningafarvegi og leggja á það kalt hagsmunamat."

Mæli hún manna heilust. Það hefur verið í senn grátbroslegt og ömurlegt að hlusta á og lesa ummæli fólks sem naumast veit hvernig hvalur er í laginu, hvað þá að það hafi séð hval, fjargviðrast út í hvalveiðar Íslendinga og halda fram allskonar endaleysu um útrýmingarhættu, neikvæð áhrif á heimsóknir ferðamanna til landsins og svo framvegis. Það hefur verið margsýnt fram á að hvalir sem við stundum veiðar á eru ekki í útrýmingarhættu og að áhrif veiðanna á heimsóknir ferðamanna eru hverfandi lítil, ef nokkur. Um hagkvæmni veiðanna skal ég ekkert segja en geng út frá því að enginn stundi hvalveiðar af hugsjónaástæðum heldur í atvinnuskyni. Ef hagnaður veiðimannanna er enginn stundar enginn hvalveiðar. Þá gufar deiluefnið upp.

En það er fleira sem "taka þarf út úr tilfinningafarvegi". Þar á meðal virkjunarmálin. Um þau hefur um langt skeið verið haldið fram allskonar vitleysu um að virkjanir vatnsorku og jarðhita "eyðileggi náttúruna", "fæli ferðamenn frá landinu" og svo framvegis. Fyrir um það bil tveimur áratugum var mikið deilt um virkjun Blöndu. Sú virkjun var sögð mundu "eyðileggja" ána og umhverfi hennar. Væntanlegt miðlunarlón var sagt myndi "kæla loftslagið" í grennd við lónið og margskonar aðra endaleysu mátti heyra og lesa. Nú hefur Blanda verið virkjuð í hátt í tvo áratugi. Var hún eyðilögð? Kólnaði lofslagið? Nei, svo sannarlega ekki. Flóðaskemmdir í Langadal hafa minnkað. Hún er ekki lakari veiðiá en hún var. Helstu breytingarnar sem menn sjá á náttúrunni eru lónið sem myndin hér sýnir og að áin er lengst af bergvatnsá, í stað þess að vera jökulsá, á kaflanum frá Blöndustíflu við Reftjarnarbungu niður að útrennsli virkjunarinnar. Ofan lónsins er áin óbreytt frá því fyrir virkjun. Nú eru Blöndudeilurnar gersamlega þagnaðar.

Ég eftirlæt hverjum og einum að meta hvort bergvatnskaflinn í Blöndu sé "skemmd á umhverf-inu" og hvort lónið sem myndin sýnir sé óprýði í náttúrunni.

Hefur Sogið verið "eyðilagt" með virkjunum? Forðast ferðamenn Þingvallavatn vegna þess að það er miðlunarlón fyir Sogsvirkjanirnar? Hefur Búrfellsvirkjun skemmt Þjórsárdalinn sem áður var eyðimörk? Forðast ferðamenn nú orðið að koma þangað? Það er vissulega rétt að Tröllkonuhlaup og Þjófafoss hurfu vegna Búrfellsvirkjunar. Hefur það dregið úr ásókn ferðamanna? Forðast ferðamenn malbikaða vegi Landsvirkjunar upp að Sigöldu og Vatnsfelli á ferðum sínum inn í Landmannalaugar, norður Sprengisand eða upp í Jökulheima vegna þess að þeim finnist þeir skemmd á náttúrunni?

Hefur dregið úr ferðum upp á hálendið á Austurlandi eftir að framkvæmdir hófust við Kárahnjúkavirkjunar vegna þess að ferðamönnum finnist þeir ekki lengur vera í "náttúru-legu" umhverfi, heldur manngerðu? Eru horfur á að ferðamannastraumur þangað dragist saman eftir að Kárahnjúkavirkjun tekur til starfa?

Vel á minnst Kárahnjúkavirkjun. Það er ekki ólíklegt að hún verði stærsta einstaka vatnsaflsvirkjunin á Íslandi um aldir. Það eru ekki margir staðir á Íslandi sem bjóða upp á sambærilega virkjunarmöguleika. Stærð hennar byggist á möguleikum til að veita tveimur stórám saman í eina virkjun og á meiri fallhæð á einum stað en annarsstaðar á Íslandi. Svo vill til að önnur þessra stóráa, Jökulsá Dal, hefur um aldir verið nábúum sínum óvinsæll farartálmi og um flest til ama, eins og ráða má af viðbrögðum bóndans úr nágrenni hennar þegar hann ók yfir brúna við mynni Hrafkelsdals síðastliðið haust, um það leyti sem byrjað var að safna vatni í Hálslón: "Ánægður með að helvítis áin er þögnuð".

Það er fjarri öllum sanni að Íslendingar og gestir þeirra eigi þess ekki lengur kost að umgangast ósnortna náttúru á Íslandi þótt við nýtum orkulindir okkar eins og efnahagsleg rök eru til. Auðvitað verður að taka tillit til náttúrunnar þegar virkjanir eru hannaðar. En það er vel hægt að gera og er gert, bæði hér og í öðrum vatnsorkulöndum. Við skulum heldur ekki gleyma því að alls hefur Ísland að geyma 164 TWh/a (terawattstundir á ári) af vatnsorku. Þar af eru aðeins 40 TWh/a taldar efnahagslega nýtanlegar, eða 24,4%. Það verður því enginn skortur á fossum og flúðum til að horfa á eða árnið til að hlusta á. Reynslan frá öðrum vatnsorkulöndum sem hafa nýtt mun stærri hluta sinnar vatnsorku en við höfum gert sannar þetta. Mörg þessara landa eru fjölsótt ferðamannalönd. Það verður Ísland líka.

Hættum þeim fáránlegu deilum um virkjunarmál vatnsorku og jarðhita sem tíðkast hafa hér á landi nú í nokkra áratugi. Leyfum skynseminni að komast að. En höldum umræðum samt áfram. Skynsamlegum umræðum.

Ég er sannfærður um að eftir einn til tvo áratugi verða Kárahnjúkadeilurnar gufaðar upp. Alveg eins og Blöndudeilurnar nú. Dagblöð munu rifja þær upp þegar þau eru í efnishraki til að minna æskuna á heimsku forfeðra hennar og formæðra, á svipaðan hátt og símadeilurnar 1905 og 1906 eru stundum rifjaðar upp með sama hugarfari.

Höfundur er fyrrverandi orkumálastjóri


Það liggur víst á að virkja

Í STERN-skýrslunni um gróðurhúsaáhrifin er lögð áhersla á nauðsyn þess að "gera strax það sem hægt er að gera strax" til að vinna á móti þeim. Meðal þess sem hægt er að gera strax er að auka álvinnslu á Íslandi með virkjun vatnsorku og jarðhita í stað rafmagns úr eldsneyti. Hvert áltonn á Íslandi sparar andrúmsloftinu 12,5 tonn af CO2. Það liggur því á að virkja hér samkvæmt þeirri skýrslu.

Í Morgunblaðinu föstudaginn 23. febrúar sl. er það haft eftir fyrrverandi umhverfisráðherra að "ekkert lægi á í virkjana- og stóriðjumálum". Og núverandi umhverfisráðherra hefur látið svipuð sjónarmið í ljós. Lítum á hvort þau eigi rétt á sér.

Í blaðagrein í Morgunblaðinu blog.is 4. apríl sl. gat ég þess að losun koltvísýrings frá raforkuframleiðslu úr eldsneyti til álvinnslu nemur nú rúmlega 100 milljón tonnum af CO2 á ári og hefur aukist um 3,28 milljón tonn á ári að meðaltali 1994 til og með 2005. Árleg aukning ein saman nam þannig um 90% af allri innanlandslosun á Íslandi 2004. Hvert tonn af áli, framleitt á Íslandi með raforku úr vatnsorku eða jarðhita í stað eldsneytis, sparar andrúmsloftinu 12,5 tonn af koltvísýringi.

Ég gat þess einnig að orkulindir okkar Íslendinga réðu vel við 2,5 milljóna tonna álframleiðslu á ári eftir svo sem aldarfjórðung sem sparaði andrúmsloftinu 31 milljón tonna af CO2 á ári miðað við framleiðslu með rafmagni úr eldsneyti. 8,5-falda núverandi innanlandslosun á Íslandi og 30% af núverandi heimslosun frá raforkuvinnslu úr eldsneyti til álframleiðslu! Til þess þyrfti nálægt 40 TWh/a (terawattstundir á ári) í orkuveri, t.d. 30 úr vatnsorku og 10 úr jarðhita. Með engu öðru móti gætu Íslendingar lagt jafnmikið af mörkum til að vinna gegn gróður-húsavandanum og með því að hýsa hér á landi allan þann áliðnað sem þeir mættu. Spurningin væri um viljann til þess.

Á bls. 261 í Stern-skýrslunni segir svo: "Fyrirtæki þurfa að taka ákvarðanir til langs tíma þegar ákveða skal fjárfestingar í verksmiðjum og tækjum sem ætlað er að starfa áratugum saman. Eitt dæmi um þetta er vöxtur áliðnaðarins á Íslandi. Ísland hefur dregið til sín álframleiðendur bæði frá Evrópu og Bandaríkjunum, að hluta til vegna þess að með því að reiða sig í miklu ríkari mæli en áður á raforku úr endurnýjanlegum orkulindum draga þeir úr áhættunni af kostnaðarhækkunum vegna strangari reglna í framtíðinni um losun gróðurhúsa-lofttegunda." Við þetta mætti bæta að álfyrirtækjum er nú orðið annt um ímynd sína. Ennfremur segir svo um íslenskan áliðnað í rammagrein á sömu blaðsíðu:

"Á síðustu sex árum hefur Ísland orðið mesta framleiðsluland hrááls í heimi, reiknað á hvern íbúa. Búist er við að álframleiðsla á Íslandi vaxi í um milljón tonn á ári, en með því væri Ísland orðið mesta álframleiðsluland í Vestur-Evrópu. Ísland á aðgang að álmarkaði bæði í Evrópu og Bandaríkjunum, en meginkostur landsins er aðgangur að vatni og mengunarlausum orkulindum. Losun á CO2 á mann frá raforkuvinnslu á Íslandi er hin minnsta í OECD-löndunum. 70% af frumorkunotkun landsins kemur frá haldbærum orkulindum í landinu sjálfu. Á Íslandi er líka verið að gera ráðstafanir til að draga úr losun flúorsambanda frá álvinnslu. Væntingar um ráðstafanir á heimsvísu í framtíðinni til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda eru nú þegar orðnar einn aðaldrifkrafturinn í að draga orkufreka starfsemi burt frá svæðum þar sem mikil slík losun fylgir orkuvinnslunni til landa með endurnýjanlegar orkulindir."

Í Stern-skýrslunni er lögð megináhersla á að það verði margfalt dýrara og erfiðara fyrir mannkynið að bíða með að gera ráðstafanir til að hemja gróðurhúsavandann en að byrja á því strax. En jafnframt að hér sé um langtímaverkefni að ræða sem taki marga áratugi. Þess er m.a. getið að "afkola" þurfi raforkuvinnsluiðnaðinn (sem að langstærstum hluta byggist nú á kolum) um 60% fyrir 2050 ef stöðva eigi koltvísýringsinnihald andrúmsloftsins við 550 milljónustu hluta (ppm). Byrjum strax á því sem við getum gert strax!

Eitt af því sem hægt er að gera strax er að hægja á, og helst stöðva, áðurnefndan árlegan vöxt á losun koltvísýrings frá raforkuvinnslu úr eldsneyti til álframleiðslu um 3,28 milljón tonn á ári. Til þess þarf að flytja hana þangað sem framleiða má raforkuna úr öðru en kolum, svo sem kjarnorku, vatnsorku, jarðhita og fylgigasi með olíuvinnslu. Tæknin til þess er þegar fyrir hendi. Meðal annars til Íslands. Við getum, ef við viljum, hýst hér áliðnað sem framleiðir árlega 2,5 milljón tonn af áli milli 2030 og 2040; löngu fyrir 2050. Það væri í samræmi við hvatningar Stern-skýrslunnar og öllu mannkyni í hag.

En þá liggur á að virkja. Og þá þurfa umhverfisráðherrar okkar að endurskoða fyrrnefnd ummæli og leggja áhersluna á það sem nú skiptir allt mannkyn langmestu í umhverfismálum: Baráttuna við gróðurhúsavána. Það er alls engin hætta á að við og gestir okkar munum ekki eiga kost á umgengni við ósnerta náttúru þótt við virkjum. Ísland er stórt og mjög strjálbýlt land.

Það hefur lítið verið minnst á Stern-skýrsluna í íslenskum blöðum síðan hún kom út. Þá birti Morgunblaðið ítarlega frásögn af henni og skrifaði leiðara um hana. Síðan hefur lítið heyrst um hana. Er hún komin upp í hillu? Sú skýrsla á ekki heima uppi í hillu en ætti að liggja opin á borðum ráðherra í öllum iðnvæddum ríkjum á hverjum morgni með miða sem á stæði "Urgent" (aðkallandi).

Ísland er í sérstöðu á heimsmælikvarða hvað orkulindir varðar. Með 100 sinnum meiri efnahagslega vatnsorku á hvern íbúa en jarðarbúar hafa að meðaltali, sem aðeins er nýtt að 29% (eftir Kárahnjúkavirkjun) og ríflegan jarðhita að auki; með eina mestu notkun á raforku á mann í landinu til almennra þarfa sem þekkist í veröldinni, og þannig staðsett, úti í reginhafi, að ekki er unnt að selja raforku þaðan til almennra nota í öðrum löndum vegna flutningskostnaðar. Breytingar á því eru ekki í sjónmáli.

Útflutningur á orkunni í formi raforkufrekra afurða eins og áls er eina færa leið okkar til að nýta okkar miklu orkulindir efnahagslega. Svo vel vill til að sú leið er jafnframt æskileg frá sjónarmiði baráttunnar við gróðurhúsavandann. Áhrif virkjana á Íslandi á náttúruna eru nákvæmlega hin sömu til hvers sem rafmagnið frá þeim er notað.

Höfundur er fv. orkumálastjóri.


Nær fjórðungur jarðarbúa er án rafmagns

Í þessari grein er skýrt frá því að í heiminum eru 1577 milljónir manna, nær fjórðungur mannkynsins, án rafmagns til almennra nota. Nær allt í þróunarlöndunum Til þess hver og einn þessa fólks fengi rafmagn í þessu skyni til hálfs á við hvern Íslending þyrfti meira en alla efnahagslega vatnsorku heimsins. Þá yrði lítið af henni eftir í orkufrekan iðnað!

Alþjóðlega orkumálastofnunin, International Energy Agency (IEA), í París gaf árið 2006 út rit sem nefnist „Orkuhorfur í heiminum 2006“ (World Energy Outlook 2006). Þar eru raktar horfur á margvíslegum sviðum orkumála í einstökum löndum og heimshlutum fram til 2030.

Meðfylgjandi tafla er samandregið yfirlit úr þessu riti yfir fjölda íbúa sem hafa ekki rafmagn til almennra nota, hvorki frá almenningsrafveitum né frá heimilisrafstöðvum.

Tafla

Eins og sjá má í töflunni er þetta mjög mismunandi eftir heimshlutum. Í heiminum öllum eru 1577 milljónir manna án rafmagns, nærri fjórði hver jarðarbúi. Í Afríku sunnan Sahara eru hinsvegar nærri þrír af hverjum fjórum án þess, í Suður-Asíu hátt í helmingur íbúanna (48,1%), 21,9% í Miðausturlöndum og 10% í Mið- og Suður-Ameríku. Í OECD-löndunum og löndum á efnahagslegu breytingaskeiði (frá áætlunarbúskap til markaðsbúskapar) er hinsvegar aðeins hálft prósent íbúanna án rafmagns til heimilisnota. (Löndin á breytingaskeiði eru Rússland og Austur-Evrópulöndin).

Kína vekur sérstaka athygli í þessu samhengi. Af 1.310,6 milljónum íbúa landsins eru einungis 8,5 milljónir, eða 0,6% íbúanna án rafmagns, nánast sama hlutfall og í OECD-ríkjunum. Í hinu risaríkinu í hópi þróunarlanda, Indlandi, (með 1094,8 milljónir íbúa) eru hinsvegar 44,5% landsmanna án rafmagns.

Til að sjá þeim 1.577,1 milljónum manna í heiminum sem eru án rafmagns til almennra nota fyrir 5.500 kWh á mann á ári, helmingnum af almennri raforkunotkun Íslendinga á mann, þyrfti 8.764 terawattstundir á ári, sem er meira en öll efnahagsleg vatnsorka í heiminum, virkjuð og óvirkjuð.

Langstærstur hluti óvirkjaðrar vatnsorku í heiminum er í þróunarlöndunum. Mörgum þeim sömu sem að ofan eru talin. Það er hætt við að lítið verði eftir af vatnsorku til stóriðju í þeim þegar almennum rafmagnsþörfum íbúanna hefur verið mætt. Jafnvel þótt við ætlum hverjum og einum aðeins helming þess rafmagns sem við sjálf notum til almennra þarfa. En í umræðum hér heima er því stundum haldið fram að raforkufrekur iðnaður sé best kominn í þróunarlöndunum vegna þess að þar sé svo mikið af óvirkjaðri vatnsorku. Ofangreindar staðreyndir renna ekki stoðum undir þá fullyrðingu.

Meginefni töflunnar er sýnt á kökuritinu.

Tafla

Höfundur er fv. orkumálastjóri.


Er baráttan við gróðurhúsavána ekki almannahagsmunir?

Á FORSÍÐU Morgunblaðsins 23. febrúar s.l. er haft eftir umhverfisráðherra að hann "gæti ekki séð að samfélagsleg nauðsyn eða almannahagsmunir kölluðu á eignarnám vegna virkjana í neðri hluta Þjórsár". Og eftir einum þingmanni Sjálfstæðisflokksins er haft um sama málefni: "Það kalla engin almannaheill á það þótt einhvern tíma hafi menn talið það í upphafi rafvæðingar á Íslandi". Það sem hér um ræðir er ákvæði í raforkulögum sem heimila stjórnvöldum að taka virkjunarréttindi eignarnámi í þágu almannahagsmuna.

Þetta ákvæði raforkulaganna er arfur frá eldri lögum, Orkulögum frá 1967 og enn eldri lögum frá 1947.Sú almannaheill sem þar var átt við tengdist vissulega rafvæðingu landsins eins og þingmaðurinn benti á. Henni er nú lokið. Líklega er það þess vegna sem ráðherrann kemst að ofangreindri niðurstöðu. En tengjast þessir almannahagsmunir rafvæðingu landsins einni? Hurfu þeir við það að henni lauk? Það er úrslitaspurningin þegar meta skal hvort þessir hagsmunir séu ekki lengur til staðar.

Seint á liðnu ári sögðu blöð frá svonefndri Stern-skýrslu um horfurnar í loftslagsmálum vegna gróðurhúsáhrifanna. Meðal annarra gerði Morgunblaðið henni ítarleg skil og skrifaði um hana leiðara. Meginniðurstaðan í þeirri skýrslu er að horfurnar séu ískyggilegar og lögð er áhersla á að mun ódýrara sé fyrir mannkynið að bregðast strax við en að bíða og gera það síðar.

Snemma á þessu ári kom út ný skýrsla Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna (IPCC). Þar er kveðið skarpar að orði en í fyrri skýrslum um þær hættur sem öllu mannkyni stafa af gróðurhúsááhrifunum. Einnig um hana fjallaði Morgunblaðið og fleiri blöð hér á landi.

Um 80% af þeirri orku sem mannkynið nú notar kemur frá eldsneyti úr jörðu. Brennsla þess er helsta uppspretta góðurhúsaáhrifanna. Bæði Stern-skýrslan og IPCC-skýrslan leggja því áherslu á aukna nýtingu annarra orkulinda en eldsneytis sem veigamikinn þátt í að hamla gegn gróðurhúsaáhrifunum.

Losun koltvísýrings frá raforkuframleiðslu úr eldsneyti til álvinnslu nemur nú rúmlega 100 milljón tonnum af CO2 á ári og jókst um 3,28 milljón tonn á ári að meðaltali á árunum 1994 til og með 2005.Árleg aukning ein saman nam þannig um 90% af allri innanlandslosun á Íslandi 2004, þar með talið frá stóriðjunni. Hvert tonn af áli sem framleitt er á Íslandi með raforku úr vatnsorku eða jarðhita í stað raforku úr eldsneyti sparar andrúmsloftinu 12,5 tonn af koltvísýringi.

Hugsum okkur að álframleiðsla á Íslandi verði komin í 2,5 milljón tonn á ári eftir svo sem aldarfjórðung. Til þess þyrfti nálægt 40 TWh/a (terawattstundir á ári), reiknað í orkuveri, t.d 30 úr vatnsorku og 10 úr jarðhita. Orkulindir okkar ráða vel við það. Sú álvinnsla sparaði andrúmsloftinu 31 milljón tonn á ári borið saman við að álið væri framleitt með rafmagni úr eldsneyti. 8,5-falda núverandi innanlandslosun á Íslandi og um 30% af núverandi losun í heiminum vegna raforkuvinnslu til álframleiðslu!

Því fer þannig víðs fjarri að ákvæði raforkulaga um forsendu almannahagsmuna fyrir því að taka vatnsréttindi eignarnámi séu orðin úrelt vegna þess að rafvæðingu Íslands sé lokið. Þvert á móti. Almannahagsmunir af að virkja vatnsorku og jarðhita til raforkuvinnslu eru nú ríkari en nokkru sinni fyrr í heimi sem fær 80% orku sinnar úr eldsneyti og er ógnað af gróðurhúsaáhrifunum. Það eru sameiginlegir hagsmunir almennings á Íslandi og almennings um alla jörð. Þetta kemur greinilega fram bæði í Stern-skýrslunni og IPCC-skýrslunni.

Þetta hljóta allir skynsamir menn að sjá. Skynsömum mönnum getur skjátlast en þeir leiðrétta sig hafi þeim skjátlast. Og umhverfisráðherra og þingmaður sá sem hér um ræðir eru báðir skynsamir menn.

Það er alveg ljóst að með engu öðru móti geta Íslendingar lagt stærri skerf af mörkum í baráttunni við þá vá sem öllu mannkyni er búin af gróðurhúsavandanum en með því að hýsa hér á landi allan þann áliðnað sem þeir mega. Og við þurfum samt ekkert að óttast að eiga ekki aðgang að ósnortinni náttúru!

En viljum við gera það? Erum við reiðubúin að leggja þennan skerf af mörkum? Því verður hver að svara fyrir sig. Við getum ekki skotið okkur á bak við fámennið til að koma okkur hjá að svara þeirri spurningu. Það eru einstaklingar sem taka ákvarðanir og bera ábyrgð, ekki nafnlaus fjöldi. Hvort vegur þyngra í huga okkar: Örlög blóma á botni Hálslóns eða örlög fólks í Bangladesh og afkomenda okkar á Íslandi?

Líklega er mesta hættan á að mönnum mistakist að vinna bug á gróðurhúsavánni fólgin í "já, en það munar svo lítið um mig"– hugsunarhættinum. Tilheigingunni til að skjóta sér sjálfum undan vanda með allskyns afsökunum en ætla öðrum að leysa hann. Sú hugsun sæmir síst Íslendingum sem hver um sig ræður yfir hundrað sinnum meiri efnahagslegri vatnsorku en hver jarðarbúi að meðaltali og ríflegum jarðhita að auki. Af þeim sem mikið er gefið verður mikils krafist.

Höfundur er fyrrverandi orkumálastjóri.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband